Parketlögn

Til athugunar áður en gegnheilt parketgólf er lagt

Þegar leggja skal gegnheil parketgólf er mikilvægt að öllum leiðbeiningum sé fylgt. Þeir sem vilja leggja á sig smá aukaumstang sem því fylgir að leggja gegnheil gólf fá í staðin tilfinninguna fyrir því að vera með alvöru gólf sem getur endst í margar aldir en ekki “ódýra” eftirlíkingu.

Veðurfar og loftraki

Gegnheill viður er lifandi efni sem dregst saman eða þrútnar við mismunandi rakastig. Meðal loftrakinn á Ísland er frekar lágur miðað við suðlægari breiddargráður. Það er því mikilvægt að parketið sé þurrkað fyrir Íslenskar aðstæður. Meðalrakinn á veturna í íbúðarhúsnæði er í kringum eða undir 40% en á sumrin rúmlega 50%. Á sumrin í rigningartíð getur loftrakinn farið uppí 60 – 80% en í frostaköflum á veturnar getur hann fallið niður í 20 -30%. Sem betur fer tekur það viðinn þó nokkurn tíma að taka til sín eða losa sig við raka og sjaldan standa svona öfgar í veðrinu mjög lengi í einu. Hafa skal einnig í huga að því breiðari sem plankarnir eru því meiri verður breiddarmunurinn á plönkunum við breytingar á loftraka. Rakabreytingarnar í viðnum er hægt að minka verulega með því að passa vel að olíubera gólfin eða lakka. Einnig hjálpar rakasperra undir gólfinu mikið. Aldrei er þó hægt að koma alveg í veg fyrir hreyfingu í viðnum,og gegnheilt plankagólf á heldur ekki að vera dautt eins og plastparket, það geta komið örlitlar rifur á milli borða á veturna sem lokast svo venjulega á sumrin. Þetta gefur gólfinu ákveðin karakter sem eikur á gildi þess.

Áður en parketið er lagt

Aðalatriðið er að rakinn í viðnum passi við rakastigið í húsinu þar sem á að leggja gólfið. Parketið okkar eru þurrkað í 8,5% + – 1,5% það samsvarar u.þ.b. 42% loftraka. Mikilvægast er því að vera viss um að allar aðstæður á staðnum sem leggja á gólfið séu eins og best verður á kosið. Þvi er nauðsynlegt að eftirarandi atriði séu í lagi. Áður en gólfið er lagt er nauðsynlegt að húsið hafi verið upphitað með jöfnum hita 20 – 22° í a.m.k. 6 vikur. Einnig að öllu múrverki og steypuvinnu hafi verið lokið fyrir þann tíma, frágangur glugga og hurða sé endanlegur og loftrakinn sé að meðaltali milli 40 og 50%. Ef líma á gólfið niður á steypu eða flot þarf að vera viss um að allur raki sé horfinn úr undirgólfinu. Algengt er að það taki 8 – 12 mánuði fyrir steypt gólf að fullþorna. Ef vafi leikur á því hvort steypan/flotið sé full þurrt skal láta rakamæla gólfið. Ekki er hægt að treysta venjulegum viðnáms rakamæli í öllum tilfellum t.d. þegar mæla á Anhydrid flotefni. Því er best að láta RB (Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins) eða sambærilegan aðila rakamæla gólfið. Hægt er að grunna gólfin með rakasperrugrunni þannig að óhætt sé að leggja gólfið á steypu eða flot sem ekki er orðið full þurrt. Farið þá eftir fyrirmælum framleiðanda rakasperrunnar. Ef ætlunin er að leggja parketið/plankana á gólfbita eða krossvið/spónaplötur er best að nota þolplast sem rakasperru undir gólfið. Við mælum með því að nota einnig rakasperru (poly-ureþan eða epoxy) á steypt gólf þó að þau séu orðin þurr. Það minkar hættuna á hreyfing í viðnum. Það er einnig mikilvægt að undirgólfið sé slétt. Til að mæla hvort gólfið er nógu slétt skal leggja 2 metra réttskeið á gólfið, það á ekki að vera meira en 1,5 mm hæðarmunur á 2 metrum. Ef munurinn er meiri þarf að flota eða fræsa niður hryggi. Ef líma skal niður er ekki síður mikilvægt að yfirborðið á steypunni sé sterkt. Best er að gera prufur með því að líma niður búta af plönkum/parketi á nokkurum stöðum á gólfinu, láta harðna yfir nótt og rífa síðan upp. Það á að vera mjög erfitt að ná bútunum upp og ef límingin er góð kemur hluti af pússningunni/flotinu með. Mikilvægt er að límið sem notað er sé ætlað til að líma gegnheilt parket/plankagólf. Fáið umsögn frameiðanda/seljanda. Notið aldrei lím sem inniheldur vatn. Alltaf skal vera a.m.k. 15 mm bil við alla veggi, súlur eða aðrar fastar hindranir. Þetta gildir um öll trégólf. Sé gólfið breiðara en 8 metrar skal mynda þenslurauf sem er a.m.k. 1 mm fyrir hvern metra gólfs.

Gólfhiti

Við ráðleggjum að nota stafaparket, 10 mm planka gólf eða samlímd plankagólf þar sem hiti er í gólfum. Allar sömu reglur gilda þar sem gólfhiti er og við venjuleg gólf. Mjög mikilvægt er að hitinn í gólfunum áður en parketið er lagt sé og hafi verið a.m.k. 6 vikur sá sami og á að vera í húsinu eftir að flutt er inn. Hitinn í gólfunum skal vera stilltur þannig að hann far aldrei upp fyrir 28 °C. Einum sólahring áður en leggja skal gólfið skal slökkva á gólfhitanum eða lækka niður í 20-22 °C. Gæta þarf þess þó ef um vetrartíma er að ræða að hafa annan hitagjafa á meðan gólfið er lagt þannig að lofthitinn fari ekki niður fyrir 18°C meðan á gólflögninni stendur.

Skoða eftirfarandi tengla: Lögn á parketi í fiskabeinsmunstur – Lögn á plönkum á grind